?

Færsluflokkur: Dægurmál

Í formi konu og bjórdósar

Þetta er fyrsta bloggfærsla mín hér og langar mig að byrja þennan feril með því að tala aðeins um hvernig það er að vera Íslendingur í útlöndum. Ég bý í Brighton á suðurströnd Englands þar sem rignir sjaldan, snjóar nánast aldrei og sólin er meira og minna sjáanleg allan ársins hring. Sem ég upplifði auðvitað sem menningarsjokk þegar ég flutti hingað ásamt minni heittelskuðu. Ströndin, þó úr steinum sé er gríðar falleg og fólkið sem byggir þennan bæ eða réttara sagt borg, Brighton varð að borg fyrir nokkrum árum þegar hún slefaði yfir 300.000 manna markið, er yfir höfuð hið yndælasta fólk. Reyndar eru heróín fíklar víst hér í tonnatali, en maður verður aldrei var þá og svo leynist hér einstaka bitur húsmóðir sem finnst ekkert eðlilegra en að öskra á börnin sín á almanna færi. Þetta eru auðvitað undantekningartilfelli og fyrir utan þetta seinheppna fólk þá eru íbúar Brighton yfirleitt afskaplega lífsglaðir og vinalegir.

Ég er að mennta mig hér í gamla heimsveldinu og þarf að ferðast til London til að gera það. London, eins og allir vita sem hafa farið þangað, er stór. Mjög stór! Mjög stór og hröð og stressuð borg. Það tekur mig um einn og hálfan klukkutíma að fara frá hurð í hurð. Ég tek lest í klukkutíma þar sem samferðarmenn mínir eru jakkafataklætt fólk með skeifusvip á andlitinu, talandi í síma um mjög alvarleg vinnumál eða pikkandi á tölvur sínar á ógnarhraða. Svo virðist sem þetta fólk vakni vinnandi og sofni í jakkafötunum. Þegar til Victoria stöðvarinnar er komið heyrist tölvurödd úr hátalarakerfi lestarinnar sem segir okkur farþegunum að bíða í 15 sekúntur þangað til að hægt sé að opna hurðina. Fólk bíður þennan tíma að því virðist pollrólegt eða þangað til að grænt ljós hefur verið gefið. Þá stekkur fólk út og þrammar í takt á ógnarhraða. Ég átti fótum mínum fjör að launa haustið 2006 þegar ég tók fyrst þátt í þessarri ógnargöngu Londonfara, en hef með þrautseigju náð að venjast þessum maurahætti. 

Lestin frá Brighton til London er hátíð miðað við það sem við tekur. Neðanjarðarlestin þegar mest er að gera er hreint út sagt skelfileg. Í fyrstu fimmtíu skiptin leið mér eins og ég væri að upplifa síldartunnu innan frá. Svitalyktin og skítafýlan sem myndast þegar tugir ef ekki hundruð fullvaxta mannfólks þjappar sér saman í nokkra litla vagna er ekki hægt að lýsa með orðum. En eins og allt sem slæmt er í þessum heimi, venst það.  Þegar skóladeginum lýkur tekur við sama sagan, nema aftur á bak og endastöðin er gleði líkust. Í formi konu og bjórdósar!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband